Facebook

My years working for the military – (in Icelandic)

  1. Upphaf

Fyrsti slökkvistjórinn sem ég vann með hét Fanslan, síðan kom Davis, svo Philipps, Robinson, Sveinn heitinn og núna ég sjálfur.

Fram að árinu 1961 sá bandaríski flugherinn um rekstur varnarstöðvarinnar en þá tók sjóherinn við rekstrinum og þetta varð að sjóherstöð. Þeir tóku ákvörðun um framtíðarskipan slökkviliðsins, er þeir sáu hvernig liðið var rekið, að þessu yrði að breyta. Þá kom upp sú hugmynd að breyta skipan mála varanlega til að beggja hagur yrði hafður í fyrirrúmi, íslenska  ríkisins og þess bandaríska, að setja Íslendinga í að reka slökkviliðið. Þessi hugmynd þróaðist fram að árinu 1963 og þá var gerð alvara úr þessu ,Captain Ellison flotastöðvarstjóri gerði það og Sveinn Eiríksson tók að sér slökkvistjóra-stöðuna. Við hinir sem vorum með honum í þessu tókum við hinum ýmsu embættum sem þurfti að manna og hermennirnir hurfu alveg frá okkur um 1967. Við vorum þá nýfluttir í þetta hús 848 úr byggingu 843 sem er hinum megin við götuna s.k. gamla slökkvistöð og var upphaflega flugstöð Keflavíkurflugvallar í stríðinu og þar fóru flugfélögin öll í gegn, K.L.M., T.W.A., B.O.A.C, PanAm o.f.l.

Fyrirmenni þessara tíma Eisenhower, Churchill og allir þessir karlar komu í gömlu stöðina okkar meðan hún var flugstöð.

Á þessum tíma vorum við með auka slökkvistöðvar hér og þar. Til að mynda í kringum árið 1956 vorum við með húsbrunadeild í byggingu 501, þar sem nú er Transportation (mótorstöð) Public Works, við vorum þar með aðstöðu uppi á lofti. Svo vorum við í húsi n.r. 2118 á verktakasvæðinu með húsbrunaslökkvibíl á tímabilinu 1956-57. Það var vegna þess að verktakastarfsemin var svo umfangsmikil að við urðum að hafa slökkvi- og björgunarlið þar. Þá var verið að endurbyggja flugbrautirnar og mikið umfang erlendu verktakanna ,,Nello Teer” og ,,Hamilton” vegna þess.

Í vesturhluta svæðisins, þar sem stöð 2 er núna, vorum við með flugvéladeild 1958 út af sprengjuflugvélum og eldsneytisvélum sem tóku eldsneyti á s.k. K-taxa sem nú er notaður sem ökubraut fyrir Flugleiðir frá nýju flugstöðinni að braut 11.

2.  Sveinn Eiríksson

Óli: ,,Hvernig myndirðu lýsa Sveini?”

Ég get lýst Sveini þannig að það var ákaflega erfitt að vinna með honum og það voru ekki allir sem skildu hans máta. Hann var ákaflega mikið fyrir sjálfan sig og að hann nyti hlutanna fyrir sjálfan sig. En samt sem áður var hann afar hreinræktaður í því að skila vel af sér því starfi sem hann tók að sér. Eitt af mínum gæfusporum var það að verða hans hægri hönd árið 1976 og fá að njóta þess að vinna með honum erfitt starf í tíu ár. Síðan hef ég verið hér slökkvistjóri í 17 ár. Ég held að ég hafi ráðið betur við þetta eftir að hafa verið með Sveini og að hafa unnið með honum, vita þess vegna hvaða hætti maður á ekki að nýta til rekstrar eða stjórnsýslu. Það er lærdómurinn sem ég lærði.

Sveinn var kraftaverkamaður. Hann gat með mikilli hörku komið ótrúlegustu málum í höfn og gert það vel og ég tel vandfundinn mikilhæfari maður til svoleiðis kraftaverka og vera nánast yfir lög og reglur hafinn meðan verkin klárast. Aftur á móti átti hann stundum erfitt með að átta sig á því að það þurfti að fara eftir lögum og reglum en hann náði engu að síður ótrúlegum árangri og á ekkert annað en gott skilið fyrir sitt framlag til slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli og því sem á bjátaði í Eyjum.

 Mannafli og vaktir

Í snjóruðningsdeildinni eru í dag 59 menn og í slökkvideildinni 101 manns – s.s. 160 manns í dag sem sinna þessum störfum sem að okkur snúa.   Fram að 1961 voru tvær vaktir með 45 manns en eftir það (um 1963) var þeim fjölgað í þrjár með 16 manns á vakt. Við bjuggum til D-vakt 1977 til að koma betra formi á vinnu starfsmanna í stað þess að hafa þá hlaupandi á milli vakta – kom þá hálf vakt inn og leysti hálfa vakt af og hefur það gengið ljómandi vel.

Við erum búnir að tala um söguna frá því fyrir 1985 og starfsmennirnir hafa verið nokkuð margir í gegnum tíðina en það hefur talsvert fjölgað í okkar röðum frá 1986. Eldurinn er og verður alltaf eins en möguleikarnir á óhöppum eru í dag allt öðruvísi. Maður verður að gera ráð fyrir hinu versta en þó vona hið besta.

Íslenskir starfsmenn tóku við þessari starfsemi árið 1963 að meira eða minna leyti. Þannig að allir bandarískir borgarar hurfu á braut, nokkrir hermenn voru þangað til 1966. Það er ekkert slökkvilið til í heiminum sem hefur notið frægðar fyrir slökkvistörf sem slík en margir hafa notið frægðar fyrir forvarnir.

Stjórnun

Orðstír okkar, vinnureglur og heilindi í starfi eru til marks um það að við náum markmiðum okkar og það má sjá frammi á gangi á þeim viðurkenningum sem okkur hefur hlotnast. Nýjasta dæmið er það þegar við skoðum hvert einasta atriði sem við gerum hér – s.k. sjálfsskoðun eftir þessu alþjóða staðlaða kerfi sem segir til um það hvernig slökkvilið á að vera rekið. Við fórum eftir þessu kerfi og fengum síðan hingað lærða menn úr þessum geira til að skoða og meta hjá okkur aðstöðu og aðbúnað.

Við komumst að raun um að þetta var sem best væri á kosið hjá okkur þ.e. reglur og siðir eru hér eins og þeir eru réttastir. Sumir af þessum körlum sem hafa verið að skoða hjá okkur segjast hafa aðrar vinnureglur en við. Hvort þetta geri okkur eitthvað betri eða verri þess vegna er hins vegar allt annar handleggur og eins og ég sagði áðan þá veit ég ekkert hvað við myndum gera ef upp kæmi að allt færi í bál og brand þar sem t.d. stór flugvél full af farþegum brotlenti inn í mitt flugskýli. Maður veltir þessu óneitanlega fyrir sér.

Þó veit ég það, að þegar mikið fólk er á hættusvæðinu, hvort sem það er í slökkviliðinu eða aðrir, að þeir sem mæta fyrstir á staðinn munu bara fara að vinna eftir því sem þeim hefur verið kennt, þeir verið þjálfaðir til og þeir bera manndóm og gáfur til að skilja.

Eins og okkar menn – þeir ganga bara til verks – og það er enginn slökkviliðsstjóri sem segir þeim það til eða frá. Þeir mæta á vettvang eftir fyrirfram ákveðnu kerfi og vinna sitt starf sem þeir hafa verið þjálfaðir til. Síðan getur neyðarkallið orðið stærra og vinnan í því meiri og þurfa þá að koma inn fleiri menn, fleiri hugmyndir og meira lið og kemur þá til kasta stjórnenda. Það er gott að gera sér grein fyrir því að þetta er svona. Til að bjarga því sem bjargað verður þarf gott skipulag.

Ég get sagt ykkur frá því þegar ég varð slökkvistjóri þegar Sveinn slökkvistjóri lést 1986. Þá kom yfirmaður hersins á skrifstofuna til mín, ég var þá varaslökkvistjóri, og sagðist vanta slökkvistjóra og að nú skyldi ég kvitta undir og ekkert meira með það.

Það var svolítið gaman að þessu því yfirmaðurinn, Captain George McLoyd, sagði mér að síminn hjá sér væri rauðglóandi vegna þrýstings manna úr Reykjavík sem vildu koma sínum manni hingað að þessu starfi.

Óli: ,,Eru nokkurs staðar innfæddir slökkvistjórar hjá ameríska hernum”?

Já, það er til hjá landhernum í Þýskalandi, einhverjir slökkvistjórar en það er hvergi eins og hérna. Það eru til dæmis hermenn í slökkviliðum og það myndi þá vera borgarar og hermenn með þýskum slökkvistjóra en þá er í raun Ameríkani með honum eða yfir honum sem sér um kanana og hermennina. Þannig að það er enginn slökkvistjóri til í slökkviliði bandaríska hersins með minn ,,status” og hefur aldrei verið til. Hann varð ekki til fyrr en ég gerðist slökkviliðsstjóri.

Óli: ,,Af hverju ekki” ?

Þeir hafa bara ekki treyst mönnum til þess. Þegar ég gerðist slökkviliðsstjóri þá var gerður samningur upp á fleiri blaðsíður sem veitir mér beinan aðgang að yfirmanni varnarliðsins til þess að hreinlega koma málum slökkviliðsins á framfæri ef ég þarf á því að halda en ekki þurfa að fara bakdyra megin eins og raunin var áður.

Óli: ,,Segðu mér Halli, hver er yfirmaður þinn” ?

Það er flotastöðvaforinginn. Kafteinninn eins og hann er kallaður.

Óli:,,Er hann mikið að skipta sér af því sem við gerum daglega” ?

Nei, nei. Það kemur fyrir að hann ber sig upp með eitthvað þegar hann vantar einhverja aðstoð. ,,Boyscouts of America” komu hingað fyrir skemmstu og vantaði húsnæði.

Ég sagði flotaforingjanum að senda strákana bara til okkar og að við myndum útvega þeim svefnpoka og láta þá gista í íþróttasalnum. Hann var voðalega ánægður með það.

Ég hef alltaf látið það vera þannig hjá okkur að ef það er eitthvað sem ekki er hægt að gera þá skulu menn bara koma og tala við okkur hér í slökkvistöðinni. Við myndum hjálpa til.

Það var allt ómögulegt um daginn þegar átti að flytja C-117 flutningavél í safn vestur að Hnjóti. Ég sagði: ,,Við skulum bara gera þetta. Þetta er fín æfing fyrir slökkviliðið að vinna við flugvél og taka hana í sundur.” Í dag er flugvélin komin vestur. Það eru ekki allir sem myndu gangast undir þetta.

 Snjóruðnings- og hleðsludeild

Slökkviliðið stækkaði samhliða auknum ábyrgðum sem á okkur voru lagðar og 1975 kemur flugbrauta snjóruðningsdeildin til sögunnar undir merkjum slökkviliðsins. Það kom til af því að flugvöllurinn var ítrekað lokaður. Það voru hermenn á vegum bæjarverkfræðings sem sáu um þetta, og það var bara svo illa að þessu staðið að varnarstöðin var nánast lokuð megnið af vetrinum vegna slóðaháttar. Það var endanlega tillaga frá íslenska ríkinu að fela slökkviliðinu þetta verkefni og Pétur Guðmundsson fyrrv. flugvallarstjóri beitti sér fyrir því að þetta átti sér stað. Ég á gömul bréf frá sendiherrum, herforingjum og Pétri um þetta mál og hvað þetta var orðið alvarlegt. Sveinn heitinn Eiríksson tók þetta að sér og úr varð að stofna nýja stöðu og ég gerðist  varaslökkvistjóri hans út af þessari auknu starfssemi. Síðar komu upp leiðindi við flugfrakt hersins og almenna þjónustu við hervélar og það féll svo inn í annað sem var um að vera á Keflavíkurflugvelli s.k. ,,Memorandum of Understanding” (1974) og fól það í sér að Bandaríkjamenn vildu fækka hermönnum og ráða Íslendinga í staðinn og urðu úr því til um 400 stöður – hermönnum fækkaði og Íslendingum fjölgaði og þá passaði það inn að setja X-fjölda manna inn í snjódeildina og jókst hún og stækkaði. Á sama tíma komu upp þessi leiðindi í tengslum við flugfraktina – mikið hafði verið þar um óhöpp og í ljós kom að hermenn höfðu verið með eiturlyf o.þ.h. í fórum sínum og þá var þetta lagt niður og við beðnir um að taka þetta að okkur (1976) og þá var það sem Sveinn bað mig um að koma með sér á dagvaktina og gerðist ég varaslökkvistjóri til þess að hann gæti ráðið við öll þessi verkefni. Vorum við saman í þessu í tíu ár eða þar til Sveinn lést langt um aldur fram 1986 og ég tók við slökkvistjóraembættinu. Síðan stækkar þetta enn frekar og 1989 tókum við við allri ábyrgð á fuglafælingu á vellinum og ég var titlaður ,,Bird Control Officer”. Við tvínónuðum ekkert við þetta, notuðumst við haglabyssur og síðan hafa fuglar ekkert verið til vandræða. Árið 1980 færðum við þotugildruþjónustuna frá slökkviliðinu til snjódeildarinnar.

 

 Eldvarnareftirlit

Þegar við byrjuðum voru 15 hermenn á vakt á hverjum degi í brunavarnareftirliti. Upp úr 1964 fórum við íslendingarnir að búa til s.k. ,,on duty fire captain” og ,,on duty fire inspector” og sá maður var úti á eftirlitsferðum allan daginn en var svo á ,,Engine Company” á nóttunni. Við vorum bara þrír eftirlitsmenn s.s. Ástvaldur, Stebbi Eiríks og ég og vill ég meina það að það hafi verið sterkasti kjarni sem nokkurn tímann hefur unnið að brunavörnum. Helgast það væntanlega af því að við vorum eiginlegir frumherjar sem bjuggum til prógrömmin sem enn er notast við í dag. Ég bjó persónulega til það sem kallast ,,Operation Edith – exit drill in the home” var sá fyrsti sem kynnti það og vann í því. Það kom til af því að það kviknaði í húsi í hverfi sem kallaðist ,,Rosebud area”, það voru braggar sem fjölskyldur bjuggu í. Þar kviknaði í herbergi, það slökkt og menn settir á vakt. Svo var talið að það þyrfti ekki lengur að vakta og fólkið svaf í hinum enda hússins – í tveimur íbúðum af þremur. En svo um nóttina blossaði þetta bál upp aftur. Það versta sem getur nokkru sinni hent slökkvilið er að fara af stað en slökkva ekki bálið að fullu – það var farið of snemma á brott.

Upp úr þessu fór ég að búa til áætlun, til þess að bæði vekja okkur betur af svefninum gagnvart þessu og eins að útskýra fyrir fólki hvað það getur gert til að bjarga sjálfu sér þar til slökkviliðið kemur.

Í dag er nú svo komið að við höfum farið út í að ráða ekki fólk af slökkvibílum sem eftirlitsmenn, heldur reynt að fá fólk beint inn sem eftirlitsmenn og frætt það upp í forvörnum. Þeirra stærsta verkefni er uppfræðsla gagnvart nýjum kynslóðum.

Það er svo makalaust hvað nýju kynslóðirnar hugsa öðruvísi en áður var – nú er mun meira öryggi á ferðinni og fólkið hugsar mun meira um þetta. Hér í gamla daga voru alls kyns olíukyndingar og hermennirnir sváfu í opnum skálum með einn ofn í miðjunni sem var kyntur fyrst með koli og koksi en síðan með olíu. Það var alltaf að kvikna í út frá þessu. Í dag er þetta ekki svona, nú er meira að segja hitaveita hjá Varnarliðinu. Reykingar hafa einnig breyst mikið – við fengum oft útköll út af fólki sem hafði sofnað út frá sígarettum í bólum sínum. Við sögðum stundum:,,Who want´s to wake up dead from smoking in bed?”

 

Við höfum eflt eftirlit og aukið samvinnu við almenning og þá sérstaklega í heimahúsum þar sem hættan er yfirleitt mest. Það hafa verið teknar saman tölur úr öllum heiminum og komið í ljós að lang algengast er að fólk deyji af völdum reyks á heimili sínu þar sem það hefur næði til að gera þá hluti sem vill hvort sem það er vel eða illa. Maður veit aldrei hvað er fyrir innan útidyrahurðina á næsta húsi. Við höfum verið svo heppnir að fá að koma inn fyrir. Við höfum komið á framfæri boðskap okkar um það hvað fólk getur gert sjálfu sér til hjálpar til að draga úr hættu á eldi og reyk.

Það er stundum verið að tala um brunavarnir sem sölumannsstarf en í raun og veru er sölumennskan afstaðin hjá langflestum, allavegana þeim með eitthvert vit og hefur gengið í skóla sem nú er yfirleitt gert, það gerir sér fyllilega grein fyrir afleiðingum þess að fylgja ekki öryggisreglum (hvort sem það er að keyra bílinn sinn eða hlaupa afturábak niður stiga – það hlýtur einhvern tímann að gerast). Fólk veit þetta og hverjar afleiðingarnar eru en það þarf stundum að sýna fyrirhyggju og vera með áætlanir. Viðhorf margra markast af því að ,,þetta reddast” þ.e. hlutitnir bjargast. Það er ekki hægt að hafa það svoleiðis endalaust því það kemur að því að það verður ekki lengur hægt að bjarga málunum.

 

Í upphafi voru bara tvær vaktir með u.þ.b. 45 mönnum á hverri og þar af voru 15 eftirlitsmenn. Svo breyttum við þessu í kringum 1963. (Sumir voru sem sagt eftirlits- og slökkviliðsmenn samtímis). Maður var eftirlitsmaður á meðan hann var að vinna, gerði ekkert annað allan daginnog fór svo í útköll sem varavarðstjóri á dælubíl á nóttunni.

Þjálfunardagar voru um helgar, á laugardegi eða sunnudegi. Seinna meir vildu menn bæta um betur og voru einstaklingar ráðnir af götunni af yfirlögðu ráði vegna þess að þeir höfðu enga reynslu af slökkviliðsstörfum. Það hefur nefninlega viljað loða við menn sem fullorðnast og eldast að þeir missa smám saman áhugann á því sem þeir eru að gera og þess vegna ekki gott að setja þá í eftirlitið.

Við höfum haft það sem sið að taka unga menn af vöktunum, sem hafa óskað eftir því að gerast eftirlitsmenn og sýnt starfinu áhuga.

Brunaeftirlitið hérna fer eftir ákveðnum stöðlum og í því felast mikil tengsl við fólk.

Þetta er náttúrulega ekki lögreglulið heldur leiðbeinendur sem vilja öllum vel.

 

Stöð 2

Nú er komin slökkvistöð vestur í ,,Alert” til að stytta viðbragðstímann okkar og það er mikill munur einnig gagnvart Leifsstöð. Ferðalagið vestur í Alert hefur alla tíð þótt of langt.

 

Fjarskipti

Hér í gamla daga var það sem kallaðist símaþjónusta þar sem almennar símadömur svöruðu. Þegar hringt var í 17 og beðið um slökkviliðið þá svöruðu þær og tengdu svo yfir í slökkvistöð ef það var eitthvað um að vera. Það þýddi að við þurftum ekki að hafa vakandi símklefa af því það var einhver sem vaktaði neyðarnúmerið. Nú í dag er þettaorðið allt öðruvísi. Nú gildir bandaríska neyðarnúmerið 911. Ef fólk hringir í 112, sem er neyðarnúmerið á Íslandi og í Evrópu, þá færist það yfir í 911 ef það er hringt hér innan vallar í 112.

Í dag er sérþjálfaður maður á símanum og búinn að vera í nokkuð mörg ár. Þetta er orðin neyðarsímstöð. Það er enginn sem ,,monitorar” þ.e. enginn sem situr vakt yfir þessu nema við sjálfir. Það er skápur hérna frammi og búinn að vera í nokkur ár með lyklum í að öllum einkaíbúðum á vellinum sem við höfum í okkar umsjá til notkunar í neyðartilfellum. Þessi varsla hefur gengið vel hjá okkur og aldrei verið neitt að.

Svona eru öll störfin sem menn vinna hérna.

 

Bílaverkstæði

Við höfum ýmislegt gert til að gera starfið markvert og til að bæta reksturinn. Er Sveinn var ráðinn slökkvistjóri árið 1963, þá gerði hann að skilyrði að við myndum ekki þurfa að lúta því að láta gera við slökkvibíla á almennum bílaverkstæðum því þeir biluðu iðulega en það dróst að gera við. Varð úr að við tókum að okkur að halda tækjunum við og stofnuðum viðgerðarmannastöðu á vöktunum – A, B og C. Þar voru Sveinn Ólafsson, Garðar Gíslason, Njáll Skarphéðinsson, Ingimundur Eiríksson og svo koll af kolli hinir ýmsu menn sem hafa unnið við þetta og hefur þetta gengið mjög vel fyrir sig. Við höfum haldið slökkvibílum 100 prósent ,,in service” síðan ´63 með þessari aðferð og sameiginlegu átaki starfsmanna.

 

  1. Slökkvitækjaverkstæði

Slökkvitækjaviðgerðir hafa tíðkast í slökkviliðinu alveg frá upphafi en verið misjafnlega flóknar. Slökkvitækin í dag eru í raun töluvert frábrugðin því sem var, þó hefur alltaf verið háþrýstibúnaður á tækjunum með koltvísýringi en áður fyrr var mun meira um eiturefni í slökkvitækjum sem menn höndluðu. Það var mikið um samruna efna til þess að búa til slökkviefni með því að hvolfa tækjunum – efni á borð við saltsýru, efni sem við fengjum sennilega ekki að nota í dag. Engu að síður eru þær kröfur sem gerðar eru til slökkviliðsmanna í slökkvitækjaverkstæðinu í dag mun meiri (með menntun og annað) en í raun höndla þeir miklu minna af hættulegum efnum en þeir gerðu áður fyrr. Verkstæðið er fyrir allt Varnarliðið og eru um 8000 tæki á svæðinu í dag. Við höfum stundað háþrýstiprófanir frá 1977 á háþrýstitækjunum, viðgerðir og viðhald á reykköfunar-verkfærunum okkar og eins kúta og ýmislegt annað fyrir aðrar deildir á Keflavíkur-flugvelli og sparast stórfé með því að hafa þetta lag á og við gerum það aðallega til þess að tryggja okkur í stöðu og vera með eitthvað meira fyrir bæjarfélagið. Mikilvægt er að slökkviliðið, sem er ekki alltaf að slökkva bál, sé með verkefni sem einhvers virði eru fyrir þá sem borga brúsann – það er bara góð pólitík.

 

 Ýmis mál og aðstoð við önnur slökkvilið

Óli Eggertz: ,,Halli, hvernig standa tryggingarmálin?”

Herinn kaupir sér ekki tryggingu frá tryggingarfélagi fyrir herinn, hernaðarmannvirki eða flugvélarnar – það bara tíðkast ekki.

Óli: ,,Og ekki hérna á vellinum?”

Nei. Þeirra trygging eru varúðarráðstafanir og slökkviliðið er ein af þeim. Aðrir sem eru á vellinum, líkt og Flugleiðir og verktakarnir, eru aftur á móti tryggðir eins og gengur.

Fólk sem einstaklingar getur keypt sér tryggingar eins og ég t.d. fjölskyldutryggingar hjá íslensku tryggingarfélögunum ef það kærir sig um. Það er nú skylt að hafa tryggingar á bílum sínum – að vísu borga þeir helmingi lægra iðgjald en við vegna þess að Keflavíkur-flugvöllur er talið svo lítið áhættusvæði ( þannig að þú Ólafur þarft að borga helmingi hærra iðgjald en John hermaður þó að þið keyrið á sama svæðinu).

Óli: ,,En slökkvibílarnir, eru þeir tryggðir?”

Nei, þeir eru ekki tryggðir hjá tryggingarfélögum heldur hjá hernum, þ.e. hann ábyrgist þá.

Óli: ,, Þannig að ef eitthvað kæmi fyrir slökkvibíl niðri í Keflavík myndi herinn ábyrgjast það?”

Já, já það er alveg í fullri ábyrgð. Þetta tengist íslenska ríkinu því það bætir tjónið ásamt varnarliðinu ef það verður eitthvert tjón. Það er sérstök tjónanefnd hjá utanríkis-ráðuneytinu sem fjallar um þessi mál og hefur alla tíð verið. Ég er þó ekki nógu fær til þess að að tjá mig um það í smáatriðum hvernig málum er háttað á milli ríkjanna tveggja.

Þó veit ég t.d. að ef þú færir á bílnum þínum og þú legðir honum hér við húsið, (það er ekkert sem segir að þú megir ekki leggja bílnum þar) veðráttan er þannig að það myndast grýlukerti við þakskeggið og það fellur loks ofan á húddið, fer í gegnum það og ofan í vél. Þá bætir sennilega íslenska ríkið skaðann af því að þú sem íslenskur ríkisborgari átt bílinn. Þetta virkar svona.

Eitt sinn var hér starfsmaður að hreinsa úr málningarrúllu og málningarúðinn fór á bíl annars starfsmanns hér á bakvið húsið og þetta varð að máli. Það var annaðhvort að starfsmaðurinn með rúlluna myndi borga hreinsun á bílnum eða íslenska ríkið. ATH  ((Þetta endaði nú með því að starfsmaðurinn sem átti hlut að máli lagaði þetta til að forðast stórmál.)) En ráðuneytið hefði þurft að taka þetta á sig fyrir þennan starfsmann. Svona var þetta þá. Þetta er sennilega svona ennþá.

Það er ýmislegt sem hefur gerst hjá okkur og fólki finnst alltaf forvitnilegt að heyra ýmislegt sem hefur komið upp. Hægt var að tala um ,,ástandsárin” hér líkt og annars staðar á landinu. Á Keflavíkurflugvelli var til að mynda mikið rætt um smyglvarning og í gamla daga var mikið eltst við hann í hliðunum. Landinn sótti hingað, að ég tali nú ekki um ungar konur sem sóttu í unga herramenn sem hér voru við vinnu og höfðu meira af munaðarvöru en aðrir.

Slökkvistöðin var nú eitt af þeim svæðum sem fólk sótti í því þar voru menn sem höfðu aðgang að víni og öðrum smyglvarningi. Það var hægt að fá þetta keypt og þið getið rétt ímyndað ykkur orðið sem á þessu liði var en síðan hefur þetta jú farið minnkandi gegnum tíðina.

Óli: ,,Var þetta ekki mest áður en Sveinn tekur við?”

Jú, þetta var áður en hann gerðist slökkvistjóri. Aftur á móti er þetta tímabil í sögu okkar sem starfsmenn hér – þá upplifðum við þetta, sáum hvernig þetta var og nýttum okkur það vitanlega sumir hverjir – bæði til að ná okkur í tóbak og vín á þessum tímum, mat, nælonsokka og tyggjó en þetta er bara lífið eins og það var. Þegar ég var strákur í stríðinu fórum við krakkarnir inn í Rauða Kross, sem stóð við Snorrabraut í Reykjavík, og keyptum ,,ice cream” og fengum stundum steiktar svínakótilettur.

Uppákomur hafa verið hér ýmsar hér á Keflavíkurflugvelli. ,,Varið land” til dæmis. Einn af hvatamönnunum að því að halda hér hernum var einmitt Sveinn heitinn Eiríksson og ég ánetjaðist þessu með þeim. Við fórum um með mikið af listum, fengum fólk til að skrifa undir þá. Þeir voru síðan lagðir fyrir þingið. Telja menn að áframhald á dvöl varnarliðsins hafi notið góðs af þessu framtaki.

Það er ýmislegt sem hefur komið upp á sem slökkviliðið hér hefur tekið virkan þátt í (fyrir utan ,,varið land”). Til dæmis fórum við alla leið til Reykjavíkur í slökkvistörf inn í skemmurnar hjá Eimskip þar sem Sindri er núna, skammt frá bækistöð Strætisvagna Reykjavíkur, (u.þ.b. 1970). Rúnar Bjarnason var þá slökkvistjóri í Reykjavík. Hann bað okkur að veita sér aðstoð og ég fór þangað sjálfur með dælubíl – setti hann út í fjöru, lagði barka út í sjó (ég var kominn með sex barka því það féll alltaf frá) og dældi sjó upp í skemmurnar og þeir voru þar uppfrá strákarnir að sprauta.

Óli: ,,Varstu bara með einn bíl?”

Já, dælubíl sem nú er í Vestmannaeyjum. Svo hlóð ég steingarð út í sjóinn fyrir rest og það féll innfyrir hann og þannig náði ég polli til að halda vatninu gangandi.

Við fórum eitt sinn til Reykjavíkurflugvallar þegar þar brann skýli. Við fórum nú þangað í óþökk því það hefur nú lengi jaðrað við að vera ekkert að biðja Keflavíkurflugvöll að hjálpa. Það er ákveðin afbrýðissemi út í það hvað við höfum haft hérna og slökkvistjórinn sem þá var, bað ekki um hjálp þótt allt væri að fara. Þetta endaði með því að Sveinn heitinn sendi tvo slökkvibíla inneftir og þeir skiptu nú aðeins máli en að vísu var þetta svo langt komið að það var í raun unnið fyrir gýg að reyna að bjarga skýlinu.

Við höfum ítrekað stutt Reykjavíkurflugvöll og sent þangað bíla þegar bílarnir þeirra hafa verið bilaðir. Það var annaðhvort að loka flugvellinum eða færa innanlandsflugið til Keflavíkurflugvallar á meðan og sá kostur var valinn að ég lánaði þeim slökkvibíl á meðan. Það var a.m.k. í tví- eða þrígang sem þetta kom upp.

Nú…þeir hafa lent í vandræðum á Akureyri og við sent slökkvibíl þangað. Þeir höfðu ekki slökkvibíl til að sinna útköllum svo við lánuðum þeim bíl. Þeir komu hingað suður og við kenndum þeim á bílinn og strákar sem höfðu verið í þjálfun hér hjá okkur áður, gamlir slökkviliðsmenn á Akureyri, þeir tóku bílinn og fóru með hann norður.

Við eigum þakkarbréf frá slökkviliðinu á Selfossi því við lánuðum þeim bíl sömuleiðis. Ýmislegt höfum við lagt til málanna og ég var nú að enda við að tala við fólk í morgun – starfsmenn sem hafa sótt um starf á Akureyri sem slökkviliðsstjóri. Tveir voru valdir nú í vikunni til þesss að vera slökkviliðsmenn í Reykjavíkurborg – 102 sóttu um, tveir héðan, sex voru ráðnir og því 30% þeirra héðan og vel það. Ég er afar hreykinn af þessum mönnum. Þeir eru hátt metnir sem koma héðan og orðstírinn er góður – hann er fyrir natni og góða samvisku.

Ég man eftir ýmsum uppákomum sem hafa komið í starfinu sem slíku. Það hafa brunnið hér flugvélar og blessunarlega verið lítið um manntjón en þó hefur það komið fyrir af og til – oftast í svona minna flugi – ferjuflugi þar sem vélinni hefur hlekkst á.

Ég man eftir því þegar F-102 þota brotlenti inni á heiðum og tapaði þar 104 flugskeytum. Það varð að loka svæðinu og við sendum Vilhjálm Arngrímsson og Ástvald Eiríksson þangað austur með vopnadeildinni til að leita að þessum rakettum sem þeir fundu fyrir rest.

Óli: ,,Hvar var þetta aftur?”

Á leiðinni inn í veiðivötn í Landssveit. Svo vorum við sendir til að ná í flugvél austur á sanda með þyrlu en sú þyrla brotnaði og menn létust.

Eitt sinn fór Sveinn heitinn upp á Mosfellsheiði til að bjarga þyrlu – hjálpa til við að ná henni þaðan til byggða. Það tókst nú að bjarga því sem bjargað varð en svo fékk hermaður af Keflavíkurflugvelli orðu fyrir afrekið þó hann hafi hvergi komið nálægt málinu.

Svona hefur þetta nú oft verið hérna þ.e. að hróður okkar hefur fallið öðrum í skaut.     Það vill nú stundum verða þannig.

Eitt sinn keyrði flugvél út af flugbrautinni við Húsavík og festist þar í drullu. Foringinn fór norður með helling af tækjum, reif vélina upp og svo flugu þeir henni suður með hjólin niðri því þeir óttuðust að tækju þeir hjólin upp þá næðust þau ekki niður aftur.

Úr þessu varð heilmikið mál.

Svo kom stóra dæmið þegar gosið varð 23. janúar 1973 í Vestmannaeyjum og þá fór Sveinn þangað. Það stóð til að reka hann fyrir það því herinn taldi hann vera að búa sér til einhvers konar ,,frægð” út á þetta á kostnað Varnarliðsins í stað þess að reyna að koma að einhverju gagni. Hann fór út í leyfisleysi  og fyrir það átti sem sagt að reka hann en okkur tókst nú að koma í veg fyrir það. Ég og fleiri héldum þessu gangandi á meðan. Sveinn fékk Fálkaorðuna fyrir framgöngu sína við að hjálpa Vestmannaeyingum í samráði við Magnús heitinn Magnússon sem var bæjarstjóri – hann hafði hringt í hann og beðið um aðstoð. Páll Zophoníasson sem er enn í Eyjum var einn af aðal mönnunum á þessum tíma.

Ég man eftir því að Sveinn flaug frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur til fundar við sendiherrann og bað hann um að útvega sér dælur en það stóð nú eitthvað á því. Þá var Víetnam stríðið í gangi. Sveinn sagði við hann: ,,Það er nú lítill kostnaður við þessar dælur miðað við það sem þú þarft að gera þarna í Víetnam og þú gætir nú hjálpað okkur því við erum vinir þínir en ekki í baráttu við þig”. Þá leit sendiherrann á Svein og sagðist ætla að bjarga þessu. Málum lyktaði þannig að flogið var með dælurnar frá Texas í C-130 flutningavélum til Eyja og þær settar upp ásamt öðru kælikerfi.

Óli: ,,Hvað voru dælurnar margar?”

Þær voru 17 talsins og samstilltar/tengdar í röð en enduðu hjá hafnarmálum eftir gos, grotnuðu þar niður og urðu ónýtar. Því miður var ekki hugsað nógu vel um þær. Við eigum hins vegar ennþá rörin, kílómetra af olíuleiðslum, sem við sendum þangað út sem voru lagðar á hraunið og tengt í þær slöngur.

Óli: ,,Gæti þetta nýst í dag ef á þyrfti að halda?”

Jú, jú en það yrði sennilega notað gott plast í dag, það myndi alveg þola að vera ofan á hrauni sem manni væri stætt á. Þannig að sennilega yrði 2-3 tommu Reykjalunds plast lagt á þetta í dag. Það yrði sennilega allt annað uppi á teningunum ef upp kæmi eldgos í Vestmannaeyjum í dag – þá yrði sennilega lítið eða ekkert gert í því. Fólk yrði líklegast flutt úr eyjunni og allt látið eiga sig þangað til gosið kláraðist. Þá yrði hraunið einfaldlega fært til, ef þörf væri á, með nútíma tækni og vélum en ekki staðið í þessu eins og þá var – fleiri manns í lífshættu við nánast vonlaust starf.

Óli: ,,En það var einhver sveit þarna – var ekki slökkvibíll þarna og mannskapur?”

Til þess að geta gert eitthvað þurfti að fá mikið meira til Eyja en var til. Þessi bíll sem ég nefndi áðan sem ég var einmitt með í fjörunni fyrir Eimskip (2 tonna dælubíll) – hann er í Eyjum núna (heitir nú SL-1 eða SL-3). Hann var einmitt einn aðalbíllinn í íshúsi Vestmannaeyja sem brann um árið (Íshúsfélagið). Þeir eru með þennan bíl ennþá.

Það er svolítið skemmtilegt að segja frá því að fyrir nokkrum árum bilaði þessi bíll, afturdrif í honum, og ekkert til í hann en það vildi svo til að ég keypti mér einu sinni rútu sem einu sinni var neyðaskýli fyrir slökkviliðið (emergency shelterbus). Ég keypti hann í sölunefndinni 1990. Ég notaði hann sem gæsaver austur í Landeyjum og á haustin hafði ég verið í þessari rútu með kyndingu og gist því ég hafði verið að skjóta gæs. Elli slökkvistjóri í Eyjum hringdi í mig og spurði hvort ég gæti hjálpað sér að finna varahluti í bílinn. Ég svaraði: ,,Þú færð bara hásinguna undan rútunni minni”. Ég fékk bændur til að rífa hásinguna úr en varð að láta þá fá eitthvað í staðinn og varð úr að þeir fengu heila notaða loðnunót fyrir hana. Þeir tóku hásinguna undan og sendu hana til Eyja. Hún fór undir bílinn og er þar enn í dag. Loðnunótin er breidd yfir heyrúllur til að hrafninn fari ekki í rúllurnar á haustin. Svo var þar annar bíll, tankbíll, en hann er búið að selja.

 

Ein fyrsta uppákoman sem ég man eftir rifjast upp þegar við förum að tala saman um sögu slökkviliðsins var, að ég held daginn eftir að ég byrjaði að vinna hérna, þegar þota í flugtaki af braut 12, sem er 11 í dag, missti afl og hrapaði í höfnina í Njarðvík. Það voru tveir menn um borð. Þeir festust í vélinni og drukknuðu þegar vélin sökk. Það voru engin tæki við hendina til að ná þeim.

Í einu útkalli sem ég lenti í á sjúkrabíl (einu sinni var sjúkrabíll í slökkviliðinu) hafði P-2 vél lent og brann á brautarmótum 16/26. Ég sá þetta nú ekki sjálfur en þegar ég kom keyrandi á braut 30 (nú 29) þá kom allt í einu skoppandi vængendi á móti okkur.

Í sprengjuhólfi vélarinnar var auka bensíntankur sem sprakk í eldinum og bráðnuðu stigar slökkviliðsins í hitanum af bálinu sem blossaði upp. Þarna brunnu sumir þriðja stigs bruna.

Þetta var allt öðruvísi á þessum tíma og allt eiginlega barn síns tíma. Vélar flugu miklu lægra, þoldu illa veðrið og mun meiri möguleikar á því að illa gæti farið. Þeir sem áttu að bregðast við ef eitthvað færi úrskeiðis þar sem mannlegur kraftur var nærri voru mun ver undirbúnir. Þetta fer allt saman með breyttri tækni. Í dag er þetta allt miklu auðveldara og einfaldara.

Það hefur komið fyrir af og til að kveikt hefur verið í, jafnt ungir sem aldnir, bæði af klaufaskap og yfirlögðu ráði. Ef eitthvað slíkt kemur fyrir þá er viðkomandi strax sendur burt héðan og fær ekki að vera stundinni lengur á Íslandi á vegum hersins.

Áður fyrr var mun meira um sígarettureykingar en er í dag. Þá var hluti af aðal forvörnunum ,,Don´t smoke in bed” áróðurinn okkar sem þið kannist við. Nú til dags er nánast ekkert talað um þetta. Áður fyrr var þetta algengt. Við lentum margoft í því að hirða fólk hálfdautt úr rúmunum á meðan logana lagði úr sængurfötunum þeirra.

Eitt sinn kviknaði lítillega í blöndung sem menn voru að sjússa með bensíni hér á vellinum on ekki vildi betur til en svo að sá sem var að hella bensíninu hrökk aftur á bak og félagi hans sem stóð fyrir aftan hann fékk logandi bensínið yfir sig úr fötunni.

Óhugnaleg óhöpp hafa átt sér stað hér þótt þau hafa sem betur fer ekki verið ýkja mörg. Það hefur komið fyrir að menn hafa sogast inn í þotuhreyfla. Mörg önnur atvik hafa átt sér stað eins og þau útköll sem við fengum utan vallar, það var oft hringt í okkur fyrst en slökkviliðið á Suðurnesjum seinna.

Svo ég segi ykkur frá meiru þá var gamla slökkvistöðin flutt yfir í húsnæðið sem hýsir slökkvistöðina í dag um árið 1966 og sennilega verður ný stöð reist hérna einhverns staðar á miðjunni á athafnasvæðinu í framtíðinni.

 

Vestmannaeyjargosið

Óli: ,,Hvað var mikill mannskapur sem fór til Eyja?” 

Ég veit nú ekki töluna en það var fjöldi manns sem fór héðan til Eyja alltaf í fríunum sínum, milli vakta og ,,Kellýum” og svo náttúrulega heill her af iðnaðarmönnum úr íslenska þjóðfélaginu sem þangað fór til að hjálpa og heilu hóparnir sem fóru til að slá bárujárni fyrir glugga sem Sveinn var nú upphafsmaðurinn að. Það gekk nú á ýmsu þarna því hinir og þessir menn vildu fá að ráða en okkar foringi réð nú ferðinni að miklu leyti enda sæmdur fálkaorðunni fyrir framgöngu sína þar.

Óli: ,,Myndirðu vilja meina að þáttur slökkviliðsins héðan og Sveins hafi verið afgerandi hvað varðar vatnskælingu?”

Já það er alls staðar viðurkennt að það hafi haft mikil áhrif en þetta var náttúrulega ekki árangur eins aðila. Það er enginn sem nær svona árangri einn. Allt þetta fólk sem kom þangað út eftir – allir þessir trésmiðir og iðnaðarmenn auk sjálfboðaliða eins og björgunarsveitarmenn gerðu stóra hluti en undir styrkri stjórn.

Óli: ,,Hvar byrjar sjókælingin?”

Upphaf hennar er tillaga frá vísindamanni, ég man ekki nafn hans, sem var til í að reyna þetta og þeir slökkviliðsmenn sem þarna voru drifu í að prófa þetta og það fór að virka með því að koma með kælingu inn á hraunið langt fyrir aftan sárið. Þá fór hraunið að stoppa sjálft sig og breytti rennslinu – bjargaði höfninni. Menn telja það engum vafa undirorpið. Þetta var það hægrennandi hraun.

Sveinn var fenginn til að koma til Hawaii til þess að meta möguleikann á að kæla hraun þar, en þar rennur það víst bara eins og Þjórsá. Þú breytir ekki rennsli Þjórsár með einhverjum smáverkum. Það virðist þó vera hægt í svona hægt vellandi hrauni þó svo að það renni áfram neðansjávar í vökvanum en um leið og búið er að breyta vökvanum í úða þá fer það að virka. Það virðist vera þannig. Þó ég sé ekkert sérfróður um þetta þá hef ég aðeins kynnt mér þetta Vestmannaeyjamál. Núna fyrir stuttu, þegar var æfing í sumar, sagði ég hópunum sem voru í þessari samvarðaræfingu frá því sem hafði skeð í Eyjum miðað við það sem ég hef frá foringjanum og hann sagði mér í okkar viðtölum þegar ég var að útvega slöngur, stúta og dót til að senda til hans. Hér í slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli hefur náttúrulega ýmislegt skeð síðan þú komst hingað Óli og alls konar uppákomur. Stjórnsýslan hjá okkur hefur nú verið upp og ofan og kannski ekki alltaf eins og hún ætti að vera. Það var til að mynda heilmikil uppákoma árið 1969 þegar flestir starfsmenn hér skrifuðu undir plagg og óskuðu þess að Varnarliðið ræki Svein Eiríksson slökkviliðsstjóra héðan í burtu fyrir hans framkomu og að þeirra mati skepnuskap gagnvart starfsmönnum. Upp úr þessu breyttust stjórnsýsluhættir og allir komust í sátt um það að halda skyldi áfram þrátt fyrir þessa óánægju alla. Þetta var aðför að okkur öllum sem voru hér í stjórn. En þetta var 1969 – löngu fyrir gosið.

 

 Störf fyrir utan slökkvistöðina

Unnin hafa verið slökkvistörf, brunavarnir og þjálfun á hermönnum austur á Hornafirði, verktökum í Hvalfirði í NATO eldsneytisstöðunni og ratsjárstöð á Hornafirði og Langanesi. Við höfum þjónað sendiráðinu og fleiri hundruð slökkvikerfum gegnum árin og eldsneytisbirgðageymslur eru útbúnar froðu sem slökkviliðsmenn hafa prófað og dælt. Við endurbyggðum kirkju sjálfir, eina slökkviliðskirkjan sem að er til nokkurs staðar að því ég best veit.

 

 Íþróttir

 Lokaorð

Óli:,,Þið hljótið að hafa gott orð á ykkur hjá Bandaríkjamönnunum”.

Já það má alveg segja það. Við höfum búið í haginn. Það er það sem fer á slysstað, menn og konur sem skipta sköpum.

Þjálfunin er uppbyggð á ákveðinn máta. Svo höfum við húsreglur eða það sem við köllum ,,Standard Operating Procedures” og höfum við alltaf stuðst við þær.

Iðnmálastofnunin hefur verið að fræða menn um þessa siði okkar þ.e. um að hafa standandi starfsreglur – hver á að gera hvað, hvenær, hvernig, hvers vegna og með hverju eins og í okkar S.O.P.’s.

Kennarar stofnunarinnar sögðu einmitt að það væri ekkert annað fyrirtæki til í íslenska þjóðfélaginu sem starfaði nánast á erlendum vettvangi og eftir erlendum reglum. Í stuttu máli sagt að ekkert fyrirtæki væri til sem kæmist með tærnar þar sem slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli væri með hælana – í raun og veru. Ég efast þó um að við njótum þessa sannmælis almennt í okkar íslenska þjóðfélagi.

 

Þegar staðlar ríkjanna tveggja (Íslands og Bandaríkjanna) rekast á og sá íslenski gengur lengra að okkar mati, þá er stuðst við hann. Nýja flugstöðvarbyggingin í Leifsstöð er til að mynda byggð samkvæmt fyrirmælum okkar og mínum undirskriftum.

Fólk temur sér það sem við höfum haft fyrir þeim varðandi uppfræðslu og kennslu á sviði brunavarna s.b.r. ,,Operation Edith”. Ég talaði við konu sem sagði að fræðslan sem hún hlaut í skóla er hún var krakki hér á Íslandi hafi gagnast henni í Bandaríkjunum mörgum árum síðar.

Við fengum fyrstu reykskynjarana sem bárust til Íslands.

Það er svo margt sem hefur komið héðan til íslensku slökkviliðanna sem eru dreifð út um allt land og ber helst að nefna tæki, mannskap og þekkingu. Aftur á móti er ekkert verið að tala um það að starfsvettvangur slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli hafi verið eitthvað viðmið annarra slökkviliða.

Email This Page